Fatnaður í vetrarhlaupin – Kaldárhlaupið

Hver er rétti eða besti klæðnaðurinn þegar hlaupið er úti í kulda?

Við þessari spurningu eru mörg svör og sitt sýnist hverjum.  Hér koma smá ráðlegginargar sem hægt er að styðjast við.

Það er auðvelt að klæða kuldann af sér, en ekki er gott að klæða sig í öll föt sem til eru og fara þannig út að hlaupa því strax á fyrstu skrefum verður manni óbærilega heitt og gamanið hverfur fljótt.

Gott er að vera í dry-fit bol næst sér, því næst þunnum langerma ullarbol frá til dæmis frá  Cintamani, eða þunnri flíspeysu, og að endingu hlaupajakkanum.  Ég er í  Craft hlaupajakka, sem er vindheldur að framan og andar vel á bakinu.  Buxurnar sem ég nota eru í þykkara lagi, með flísáferð, vindheldar að framan en anda vel, sérstaklega að aftan.  Alveg fyrirtaks buxur frá Craft.  Ég hef prófað að vera í síðum nærbuxum innanundir, en oftast verður mér allt of heitt.

Til að stjórna hitanum betur er ég með húfu á hausnum og í vettlingum sem ég fer svo úr ef hitinn verður óbærilegur.  Eins er gott að vera með buff um hálsinn.

Bómullarflíkur eru afleitur kostur bæði sem nærföt eða eitthvað annað.

Niðurstaða:  Lang best er að klæða sig ekki of mikið, því um leið og maður fer að hreyfa sig fer allt kerfið af stað og framleiðir nægilega orku til að halda á manni hita.

Endilega leggið til málanna hvernig ykkur finnst best að klæða af ykkur veturinn.  Þetta er alls ekki heilagur sannleikur, allar tillögur eru vel þegnar.

Kaldárhlaupið
Kalárhlaupið fer fram næstkomandi sunnudag.  Hægt er að skrá sig á Hlaup.is.  Munið að skrá Hlaupahóp FH sem skokkhóp ykkar.  Veðurspáin fyrir sunnudaginn er góð; lítilsháttar snjókoma, -2°c frost og örlítill vindur (meðvindur).

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.