Vetrarhlaup

Á æfingunni í gær urðum við vör við að veturinn er farinn að minna aðeins á sig.  Það var víða hálka á götum og gangstéttum, til dæmis var fljúgandi hálka í Setberginu.  Það var búið að salta í Garðabænum svo stefnan var tekin þangað.

Að hlaupa í snjó, hálku og erfiðu vetrarfæri getur verið erfitt en það er algjör óþarfi að sitja heima þó hálka sé á götum.

Við förum bara í neglda skó eða setjum á okkur gorma eða brodda.
Yaktrax gormarnir hafa reynst vel og hafa hlauparar gefið þeim bestu meðmæli.  Þeir eru öruggir og einfaldir í notkun og góður kostur í erfiðri færð.  Þeir fást m.a. í Fjallakofanum Reykjavíkurvegi og Afreksvörum Glæsibæ.  Verðið er í kring um 5.500.-

Eins eru gömlu góðu broddarnir góðir og gildir.

Sumir skóframleidndur bjóða upp á vetrarskó með nöglum.  Slíkir skór frá Asics hafa sést innan hlaupahópsins, hún Hrönn Bergþórsdóttir hefur mætt á slíkum þegar færðin hefur boðið upp á það.

Svo eru aðrir sem eru svo fótvissir að þeir þurfa hvorki gorma né neglda skó, en það er um að gera að fara varlega.

Það er því ljóst að hálka á götum þýðir ekki algjört stopp, heldur er bara smá hindrun sem lítið mál er að yfirstíga.

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Vetrarhlaup

  1. Guðni sagði:

    Við fengum 10% afslátt hjá Fjallakofanum í fyrra af hálkugormunum – um að gera að spyrja núna!

Lokað er á athugasemdir.