Það er auðvelt að klæða kuldann af sér, en ekki er gott að klæða sig í öll föt sem til eru og fara þannig út að hlaupa því strax á fyrstu skrefum verður manni óbærilega heitt og gamanið hverfur fljótt.
Lykilatrið er að vera í fleiri þunnum flíkum en fáum þykkum.
Gott er að vera í dry-fit bol næst mér, því næst þunnum langerma dryfitbol (eða jafnvel þunnum langerma ullarbol) og að endingu hlaupajakka. Það er hægt að fá hlaupajakka sem er alveg vindheldur að framan en andar vel á bakinu.
Gott getur verið að buxurnar séu í þykkara lagi, vindheldar að framan en anda vel, sérstaklega að aftan.
Til að stjórna hitanum betur er gott að vera með húfu á hausnum og í vettlingum sem hægt er að fara úr úr ef hitinn verður óbærilegur. Eins er gott að vera með buff um hálsinn.
Bómullarflíkur eru afleitur kostur bæði sem nærföt eða eitthvað annað. Um leið og bómull blotnar missir hún einangrunargildi sitt og gerir oft og tíðum meira ógagn en gagn.
Ef það er ofankoma getur verið gott að vera með gleraugu til að verja augun.
Ef það er mjög kalt er um að gera að bæta við fleiri flíkum, en það þarf að hafa það í huga að manni hitnar á hlaupum. En ef frostið er mjög mikið er jafnvel betra að hlaupa innandyra á bretti – eða bara hafa það gott heima með kakóbolla.
Niðurstaða: Lang best er að klæða sig ekki of mikið, því um leið og maður fer að hreyfa sig fer allt kerfið af stað og framleiðir nægilega orku til að halda á manni hita.
Muna svo eftir endurskinsvestum og merkjum!