Enginn verður betri af engu!

Í þessari grein eftir félaga okkar Elsu Sigríði Þorvaldsdóttur sem birtist í Iðjuþálfanum nú í vor, segir hún frá reynslu sinni og hvað það er mikilvægt að vera við góða heilsu.

Ég falaðist eftir því að fá að birta hana hér á heimasíðu okkar og að sjálfsögðu tók hún vel í það  (hbk).

Elsa Sigríður að loknu Brúarhlaupinu 2012

Elsa Sigríður að loknu Brúarhlaupinu 2012

Með þessari grein langar mig að deila með ykkur eigin reynslu að lifa með langvinan sjúkdóm um leið vona ég að hún verði hvatning fyrir aðra sem upplifa veikindi eða vinna með veikum einstaklingum.

Árið 2000 varð ég fyrir því að bíll bakkaði á mig og ég brotnaði á olnboga og skaddaðist á hné. Það gekk illa að rétta úr olnboganum þrátt fyrir afar góða sjúkraþjálfun og endaði með því að ég var send til læknis og áfram þaðan til gigtarlæknis. Á örfáum vikum snarversnaði mér og ég var nánast orðin farlama sem átti nú ekki alveg við mig og mér fannst ég vera að missa líf mitt úr höndunum. Í einni læknisheimsókninni lét læknirinn minn mig  greina mig og ég spurði „heldur þú að ég sé komin með liðargigt ? Já svaraði læknirinn ég er hræddur um það. Mér fannst hreinlega ég væri að detta niður úr tré. Var sett í veikindafrí og var bara orðin sjúklingur. Þarna voru prófuð hin ýmsu lyf en allt kom fyrir ekki, ekki skánaði mér.

Ég svaf orðið á snúningslaki, var með kjálkaspelku, úlnliðsspelkur, hálskraga, gat ekki verið í neinum skóm, var afar óstöðug og ef ég datt gat ég eignlega ekki staðið upp aftur.  Held það hafi ekki verið liður í líkamanum sem ég var ekki með bólgur í. Þarna voru börnin mín 3, 6, 8 og 12 ára og spurðu hvort ég væri nokkuð að deyja. Mér leið best ef ég tók nógu mikið af sterum en svo kom dagurinn sem ég fékk að prófa lyfið Embrel og viti menn, ég fékk líf mitt til baka og var komin á skíði viku síðar. Ég fór aftur að vinna og varð hin hressasta og rúmu ári síðar flutti ég ásamt fjölskyldunni út á land. Áfram var nú fylgst vel með mér en ég var bara nokkuð hress en þoldi fremur illa alla líkamlega áreynslu sem mér fannst afleitt.

Elsa og Sveinbjörn

Árið 2004 fór mér að versna verulega aftur og fór að fá slæm útbrot. Nú var ég greind með  Lubus sjúkdóm (Rauða úlfa). Ég var látin hætta á Embrel og  sett á Methotrexate, Plaquenil og blóðþrýstingslyf. Hægt og rólega fóru útbrotin og ég fór að ná betri heilsu. Frá því að ég veiktist hef ég farið í sund á hverjum degi, stundum syndi ég en stundum sit ég bara í pottinum læt mér líða vel. Ég fór líka í ýmsar göngur um fjöll og dali eða eins og heilsan leyfði og reyndi að vera í líkamsrækt en þá versnaði mér oft. Svo fór ég í hestaferðir. Í einni ferðinni fékk ég lungnabólgu og í kjölfarið brjósthimnubólgu og bólgur í gollushúsið. Ég vann mig út úr því með hjálp lyfja. Haustið 2007 fluttum við suður aftur og allt gekk vel, nema mér tókst að detta af hestbaki 2009 og þríaxlabrjóta mig (þá varð ég frekar fúl, fannst nú komið nóg).

Í janúar 2010 plataði mágkona mín mig sem er 13 árum yngri en ég, að koma á hlaupaæfingu hjá FH. Ég sló til og mætti á æfinguna í kulda og dimmu, þarna var ég 48  ára gömul! Eftir þessa fyrstu æfingu spurði ég þjálfarann hvort ætti virkilega að ganga frá fólki svona á fyrstu æfingunni, mér fannst þetta svo erfitt. En eftir þetta var ekki aftur snúið og þarna er ég búin að mæta meira eða minna á æfingar 3 x í viku í bráðum þrjú og hálft ár. Maðurinn minn elti mig svo einhverjum mánuðum síðar og er alveg fallinn fyrir þessari íþrótt. Við eigum orðið frábæra hlaupafélaga sem gera það að verkum að við mætum aftur og aftur.

Laugavegshlaupið 2012

Síðan ég byrjaði er ég búin að hlaupa þrjú hálfmaraþon, meira að segja eitt í Köln, mörg 10 km hlaup og nokkur 5 km hlaup. Ég hef verið ótrúlega hress, fékk að vísu aftur lungnabólgu, brjótshimnubólgu og gollushúsbólgu í feb í fyrra. Hélt ég væri með svo miklar harðsperrur eftir hlaupin en þegar ég var hætt að geta andað fór ég til læknis! Ég hætti ekki að hlaupa, en hægði á mér um stund, fór í sund og mætti svo á æfingar, þó að ég hlypi ekki með hópnum, þá fannst mér mikilvægt að hitta þau aðeins og svo fór ég mína leið. Hægt og rólega náði ég mér á strik og hljóp Laugaveginn (Landmannalaugar – Þórsmörk) á tveimur dögum og hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu um sumarið. Núna í sumar er stefnan sett á Snæfellsjökulshlaup, Landmannalaugar – Þórsmörk á tveimur dögum og hálft Maraþon í Reykjavík og Amsterdam í haust.

Það eru ekki alltaf jólin, því nú meðan ég skrifa þessa grein hef ég þurft að draga mig til baka úr hlaupunum vegna smá bakslags en vona ég nái að hrista þetta af mér svo ég missi ekki af öllum hlaupunum sem eru plönuð! Nú ef ég get ekki hlaupið verð ég að finna aðra nálgun að hlaupunum, vera hvetjandi á hliðarlínunni, aðstoða þá sem eru að byrja að hlaupa og síðast en ekki síst mæta í allar uppákomur hlaupahópsins.

Í þessum sjúkdómsferli mínum hef ég haft að leiðarljósi að ég er ekki sjúkdómurinn en ég er með farþega sem fylgir mér. Ég tek lyfin mín og fullt af vítamínum og þakka fyrir á hverjum degi að halda heilsu. Það eru ekki bara hlaupin sem eru góð, það er líka samveran með góðu fólki og svo hef ég trú á að andosínefnið sem er í útloftinu sé líka gott fyrir heilsuna. Með þessari grein langar mig að hvetja alla þrátt fyrir einhverja heilsubresti til að fara út að hlaupa / ganga eða stunda aðra reglubundna hreyfingu og vera þannig góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín, ættingja eða vini. Hafið það hugfast að; það verður enginn betri af engu.

Á verðlaunapalli eftir Brúarhlaupið á Selfossi 2012

Ég varð óskaplega glöð þegar ég heyrði af gamalli vinkonu sem byrjaði að hlaupa fyrir rúmi ári. Hún frétti að ég væri byrjuð að hlaupa og sagði; ef Elsa getur hlaupið, hlýt ég að geta það líka. Ég þakka fyrir hvern kílómetra sem ég hleyp og fyrir hvern nýjan dag.

Eigið góðar stundir

Elsa Sigríður Þorvaldsdóttir maraþonhlaupari 🙂

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.