Laugavegurinn 2014

Þau lögðu af stað um miðja nótt úr bænum í fylgd hans Gísla okkar Guðmundssonar. Stoppuðu á leiðinni, snæddu morgunnmat og fræddust um örnefni og staðahætti. Rigningin var töluverð en það fékk lítið á hópinn okkar enda vanur og vel undirbúinn hópur þarna á ferð. Það væri ekki rétt ef maður segði að ferðin hefði gengið áfallalaust fyrir sig en ýmislegt gekk á hjá hópnum okkar m.a. tognun eftir 400 metra, krampar í vöðvum og gömul og ný meiðsl að hrjá suma en… ÖLL komu þau með bros á vör í mark eftir 55 km ferðalag frá Landmannalaugum í Húsadal í Þórsmörk. Ferðalag sem er ekki öllum fært að fara og því mikið afrek og algjör forréttindi að fara þetta. Það er sko ekkert sjálfgefið að komast alla þessa leið hlaupandi á örfáum klukkutímum.
Þess má sérstaklega geta að Erla vann sinn aldursflokk og erum við endalaust stolt af henni sem og af þeim öllum: Önnu, Erlu, Ingu, Jóni Gunnari, Kristjáni, Sigga og Viktori.
Stuðningsmannaliðið sem mætti hópnum var ekki laust við að blandast inn í stemminguna og tilfinningar hlaupafélaganna enda ekki annað hægt. Stolt var eiginlega það fyrsta sem fólk upplifði fyrir utan spennu og gleði og stutt var í gleðitárin.
Talsvert af myndum eru komnar inn á fésbókina okkar og hvet ég fólk til að skoða þau skemmtilegu skot af mögnuðum augnablikum úr hlaupinu sem og fyrir og eftir hlaupið.

Hér á eftir er slóð á úrslitin úr hlaupinu: http://marathon.is/urslit-laugavegshlaupidh/urslit-2014

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.