Fréttatilkynning
Styrktarhlaup Líffæraþega þriðjudaginn 20. maí 2014
Árið 1978 var í fyrsta sinn haldið íþróttamót líffæraþega í Portsmout á Englandi og kepptu þar líffæraþegar frá Bretlandi, Frakklandi, Grikklandi og Bandaríkjunum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og inniheldur Heimsleikasamband Líffæraþega, World Transplant Games Federation (WTGF), nú um 70 þátttökulönd. Síðast þegar leikarnir fóru fram, sem var árið 2013 í Durban í Suður Afríku, tóku fulltrúar 50 þjóðlanda þátt en rétt til þátttöku hafa líffæraþegar og fólk sem er í blóðskilun. Á leikunum í Durban voru keppendur á aldrinum 4 til 80 ára.
Síðustu leikar voru einnig þeir leikar sem Íslendingar tóku fyrst þátt í og voru það þau Kjartan Birgisson, fyrirliði, Björn Magnússon og Laufey Rut Ármannsdóttir sem kepptu í hlaupum, golfi og badminton. Laufey Rut gerði sér lítið fyrir og vann til bronsverðlauna í sínum flokki í 5km götuhlaupi. Þau þrjú eru úr hópi fjölda íslenskra líffæraþega, einstaklinga sem fengu annað tækifæri þegar þeim hlotnaðist líffæri frá öðrum einstaklingi og þar með möguleiki til áframhaldandi lífs og lífsgæða. Það er vert að hugsa til þess hversu heppnir þeir eru sem aldrei þurfa að leiða hugann að þeim aðstæðum sem skapast þegar líffæri gefur sig í líkama einstaklings og um líf og dauða er að tefla. Einnig, að það eitt að hreyfa sig og stunda dagleg störf finnst mörgum mjög eðlilegt og jafnvel sjálfsagt. Við sem erum á fullu í hreyfingu; hjólum daglega til vinnu, hlaupum reglubundið með félögunum, mætum í líkamsrækt eða göngum allan ársins hring okkur til heilsubótar leiðum of sjaldan hugann að því hversu heppin við erum og að þetta er ekki allt saman alveg sjálfsagður hlutur.
Í maí 2013 fór í fyrsta sinn fram á Íslandi götuhlaup til styrktar keppendum sem hugðust taka þátt í Heimsleikum líffæraþega sem fram fór í Durban í Suður Afríku síðar um sumarið. Forsprakkinn var Kjartan Birgisson hjá Hjartaheill og fékk hann til liðs við sig fjölda vina og sjálfboðaliða sem létu viðburðinn verða að veruleika og meira en það, þar sem hlaupið heppnaðist það vel að það var valið „Besta götuhlaupið 2013“ samkvæmt einkunnargjöf fyrir götuhlaup á www.hlaup.is
Í ár verður leikurinn endurtekinn í samvinnu við Heilsutorg.is og fer hlaupið fram þann 20. maí í Fossvogsdalnum en hlaupnar verða tvær veglengdir, 5 og 10 km sem eru löglega mældar.
Allur ágóði hlaupsins rennur til styrktar ferðinni til Argentínu þar sem næstu leikar fara fram, nánar tiltekið í Mar Del Planta 23. – 30. ágúst 2015. Nokkrir íslenskir líffæraþegar stefna á að ferðast til Argentínu og taka þátt í þessum stóra viðburði. Sjá má upplýsingar um viðburðinn á http://www.wtgf.org en þar má sjá hversu stór og metnaðarfullur viðburðurinn er
Kynning fer fram á www.hjartaheill.is og heilsutorg.is en skráning er hafin á http://heilsutorg.karfa.is/products/styrktarhlaup-argentinu-heimsleikafara
Allir sem skrá sig í hlaupið fá 15% afslátt af skóm í vefverslun Heilsutorgs !
Styrktarhlaupinu er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á viðburðinum í Argentínu og því að Íslendingar eru meðal þátttakenda en einnig að safna fé til handa ferðalöngunum.
Mætum öll í Víkina þann 20. maí, hreyfum okkur saman, vinnum kannski til einhverra verðlauna og styðjum við gott málefni.
Fyrir hönd framkvæmdaaðila,
Kjartan Birgisson, ábyrgðarmaður kjartan@hjartaheill.is
Fríða Rún Þórðardóttir, hlaupstjóri frida@heilsutorg.is