Veðrið leikur við okkur þessar vikurnar. Þó það sé vægt frost þá erum við laus við snjó og krapa sem er lítið spennandi að hlaupa í.
Síðastliðinn fimmtudag lagði Hópur 1 undir sig Flensborgartröppurnar. Pétur þjálfari var uppátækjasamur og lét félags sína aldeilis taka á því. Þetta var hörku æfing og voru harðsperrur allsráðandi hjá vel flestum dagana á eftir. Guðni skrifaði um reynslu sína á skemmtilegan hátt. Á fésbókaveggjum sagði fólk frá ferlegum harðsperrum – en var á sama tíma ánægt með flotta æfingu.
Búið er að setja æfingaplanið í dagatalið. Eins er búið að setja þar inn flest öll hlaup sem eru á dagatali Reykjavíkurmaraþonsins.
Næstkomandi fimmtudagskvöld er Powerade hlaup í Árbænum.
Sunnudaginn 16. desember fer fram Kaldárhlaupið. Búið er að opna fyrir skráningu í það á Hlaup.is. Hlaupið er frá Kaldárbotnum og endað í miðbæ Hafnarfjarðar, einstaklega skemmtileg 10 km hlaupaleið. Hlaupaleiðin er hugsuð sem vatnaleið Hamarskotslækjar frá Kaldárbotnum til sjávar. Skráningargjald er 1.200 kr. Boðið er upp á fría rútuferð kl. 12.15 fyrir keppendur frá Hafnarfjarðarkirkju og í Kaldárbotna. Hér má skoða hlaupaleiðina.
Eins er búið að opna fyrir skráningu í Gamlárshlaup ÍR á Hlaup.is
Jólaljósahlaupið okkar verður 18. desember, nánar um það þegar nær dregur.
Fín veðurspá fyrir vikuna.
KOMASO.