Hlaupadagbókin á hlaup.is

Hlaupadagbókin hefur nú verið uppfærð í útgáfu 2 og hafa eftirfarandi liðir verið endurbættir og lagfærðir. Reynt hefur verið að taka tillit til eins margra ábendinga frá ykkur og hægt var núna, en þó nokkrar endurbætur á samt eftir að gera.  Vinna er hafin við næstu útgáfu, útgáfu 3 og þá reynum við að þétta þetta enn frekar með innlestri frá Garmin úrum, öðrum æfingategundum og mörgu öðru. Vonandi náum við að koma þeirri útgáfu út í lok janúar. Endilega haldið áfram að koma með athugasemdir og ábendingar svo hægt verði að bæta dagbókina og gera enn betri.

Í þessari útgáfu er nú hægt að opna fyrir aðgang annarra að æfingum hvers og eins, en stillingin er sjálfgefin “Lokað öllum nema mér”. Mig langar því til þess að biðja ykkur um að breyta þessari stillingu undir “Notanda upplýsingar”, ef þið viljið opna æfingar ykkar fyrir skoðun annarra, en það er auðvitað hverjum í sjálfsvald sett hvort hann gerir það.

1. Bætt æfingaskráning

 • Við innskráningu fer notandi nú beint á æfingaskráningarsíðuna þar sem búið er að búa til einn æfingahluta.
 • Tími æfingar kemur nú alltaf sjálfgefinn 00:00
 • Ekki er þörf á að fylla út í Tegund æfingar eins og áður. Eina sem þarf að fylla út er annaðhvort tími eða vegalengd, ekki bæði. Það er því hægt að skrá æfingu sem án vegalengdar eða tíma. Dæmi um það er til dæmis skráning á spinning tíma þar sem ekki er hægt að fá upplýsingar um vegalengd. Það er því algerlega undir notandanum komið hvað hann skráir.
 • Tímasvæði í æfingahluta lagað.
 • Athugasemdareitur var stækkaður fyrir hvern æfingahluta.
 • Nú eru þeir hlutar sem eru á núlli (ekki fyllt út í) merktir með rauðu til ábendingar. Ekki er þörf á að fylla út í þessa hluta, en þeir engu að síður rauðmerktir.
 • Hægt er að fara í skoðunarham á æfingum án þess að fara á sama tíma í leiðréttingarham.
 • Villa vegna fjölda æfingahluta löguð. Ekki var hægt að skrá meira en 10 æfingahluta, en það hefur verið lagað.

2. Eigin upplýsingar
Bætt hefur verið við þrem svæðum, tveim stillingasvæðum og einu upplýsingasvæði.

 • Með því setja svæðið “Sjálfgefin grein” á þá grein sem er aðalgrein viðkomandi, þá er sú grein alltaf sjálfgefin í vali og farið er yfir á viðkomandi æfingasíðu.
 • Með því að stilla svæðið “Aðgengi annarra”, þá er hægt að velja um hvort skráningin er öllum lokuð eða öllum opin eða hvort félagar í sem eru í hóp með viðkomandi geta séð skráningar. Í upphafi er skráning stillt á “Lokað öllum nema mér” og því þurfa þeir sem eru skráðir í dagbókina að breyta þessari stillingu ef þeir vilja sýna skráningar sínar annað hvort öllum eða hópmeðlimum.
 • Þriðja svæðið heitir “Núverandi markmið” og inniheldur upplýsingar sem birtast þegar dagbókarnotendur eru að skoða æfingar annarra.

3. Skoðun á æfingum annarra aðila
Nú er hægt að skoða æfingar hjá öðrum ef þeir gefa heimild til þess samanber stillingar sem lýst er í lið 2 hér fyrir ofan. Með því að smella á stækkunarglers táknmyndina fyrir aftan nafn aðila í dagbókinni þá er hægt að skoða yfirlit yfir æfingarnar hans og einstaka æfingahluta í töfluformi. Ef skoða á nánari upplýsingar um æfinguna, þá er hægt að gera það með því að smella á stækkunarglerið aftast í línunni.

Hægt er að finna lista yfir alla notendur í dagbókinni undir “Notanda upplýsingar”. Einnig er hægt að skoða viðkomandi út frá Topp listanum og Hópa listanum.

4. Bættar upplýsingar þegar hópar eru skoðaðir
Þegar hópar eru skoðaðir sést meira af upplýsingum um hópmeðlimi, vegalengd hlaupin, heildartími, tempó og meðalhraði í núverandi viku. Einnig eru samantektartöflur fyrir hópana í vikunni, mánuði, ári og frá upphafi ítarlegri.

5. Hægt er að velja stærð á töflum sem verið er að skoða
Neðst í öllum töflum er nú kominn valmöguleiki um stærð á töflum. Þetta gildir þó ekki um topplistana á yfirlitssíðunum.

6. Allar töflur hafa verið endurbættar
Búið er að fara yfir allar töflur og þær upplýsingar sem voru í þeim og þær straumlínulagaðar.

7. Sundtempó einingu bætt við
Nú er sundtempó orðið mín/100m í stað mín/km eins og í hlaupum, göngu og hjóli.

8. Tilkynningar
Skilaboðum um nýjar útgáfur á dagbókinni eru undir nýjum lið í vali, “Tilkynningar”.

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.