Áheitasöfnun – slær Kári Steinn 2:19:46?
Hlaup.is mun standa fyrir áheitasöfnun fyrir Kára Stein Karlsson til að fjármagna undirbúning hans fyrir maraþonhlaupið á Ólympíuleikunum í London 2012. Söfnun áheita fer fram á tímabilinu 20. ágúst til 25. september.
Fólk getur heitið á hann tiltekinni upphæð ef hann slær Íslandsmetið í maraþonhlaupi 2:19:46 klst. í Berlínar maraþoni er fram fer 25. september næstkomandi. Metið setti Sigurður P. Sigmundsson í Berlín árið 1985 og því löngu tímabært að slá það.
Fólk heitir á Kára Stein með því að skrá áheit sitt á Hlaup.is. Áheitin verða innheimt eftir 25. september ef Kári Steinn nær metinu.
Forsvarsmenn og ábyrgðaraðilar áheitasöfnunarinnar eru Gunnar Páll Jóakimsson, Sigurður Pétur Sigmundsson og Torfi H. Leifsson. Þeir munu jafnframt halda utan um greiðslur til Kára Steins, ef dæmið gengur upp, í samræmi við útlagðan kostnað. Á heimasíðu Hlaup.is verður gerð grein fyrir heildarupphæð áheita og fjölda þeirra sem þátt tóku í lok söfnunarinnar. Endurskoðendafyrirtækið Ernst og Young mun sjá um að yfirfara reikningsskil verkefnisins og Borgun mun sjá um að innheimta kortafærslur vegna áheitanna.
Kári Steinn Karlsson er 25 ára gamall og á Íslandsmetin í 5.000 m (14:01,99) og 10.000 m (29:28,05) brautarhlaupum auk meta innanhúss og fjölda Íslandsmeta í yngri aldursflokkum. Hann hefur verið fremsti langhlaupari Íslendinga um langt árabil og staðið sig vel í landskeppnum og stærri mótum erlendis m.a. sigrað á Smáþjóðaleikunum.
Kári Steinn útskrifaðist sem rekstrarverkfræðingur frá háskólanum í Berkeley, USA, síðastliðið vor og er fluttur heim til Íslands. Hann hefur ákveðið að snúa sér í auknum mæli að keppni í götuhlaupum með maraþonhlaup sem aðalgrein. Ljóst er að það mun verða dýrt að gera út frá Íslandi. Þegar liggur fyrir að Kári Steinn mun fara í þrjár æfingabúðir, 2-3 vikur í senn, næsta vetur og 4-5 keppnisferðir. Kostnaður við þessar ferðir er áætlaður 2 m.kr. Þá er ótalinn ýmis annar kostnaður sem fylgir því að vera afreksmaður í fremstu röð í langhlaupum.
Það er von Hlaup.is að áhugafólk um langhlaup og íþróttir almennt sé tilbúið að heita á þennan unga og efnilega afreksmann. Hann er góð fyrirmynd og getur náð mjög langt fái hann tækifæri til að stunda sína íþróttagrein af fullum krafti.