Mæting á æfingar hefur glæðst undanfarið og nokkrir nýliðar gengið til liðs við hópinn. Þó margir félagar séu í sumarfríi er ánægjulegt að sjá hversu duglegir allir í hópnum eru að hreyfa sig. Mjög margir eru að stunda fjölbreytta hreyfingu með hlaupaæfingum og það er nauðsynlegt til að öðlast alhliða styrk. Þjálfarar vilja minna alla á að eyða drjúgum tíma í teygjur.
Á morgun fer fram Ármannshlaupið og er hlaupið tilvalin vettvangur fyrir þá sem vilja bæta tíma sína enda býður brautin upp á hraða tíma. Mörg keppnishlaup eru framundan og eru nokkrir í hópnum að keppa á Laugaveginum um næstu helgi og óskum við þeim góðs gengis. Einnig stefna nokkrir félagar á Jökulsárhlaupið í lok mánaðarins og er greinilegt að utanvegahlaupin eru í mikilli sókn þessa dagana.
Um liðna helgi tóku nokkrir félagar þátt í hálfum járnkarli í Hafnarfirði og stóðu sig með eindæmum vel. Öll úrslit og myndir frá atburðinum er hægt að skoða inn á www.3sh.is