Að setja sér markmið fyrir sumarið

Margir  í HHFH hafa sett sér stór markmið fyrir sumarið og ætla að hlaupa allt frá 5km upp í maraþon í keppni. Þetta kallar á ákveðinn undirbúning sem er mjög mismunandi eftir vegalengd. Þeir sem ætla að keppa t.d. í maraþoni í haust þurfa að fylgja u.þ.b. 16 vikna maraþonæfingaáætlun og er þá miðað við nokkuð góðan grunn. Fyrir hálft maraþon er svipaður undirbúningstími en styttri vegalengdir hlaupnar á æfingum. Það sama gildir um aðrar vegalengdir. Það er mikilvægt að félagar noti McMillan-hlaupareiknivélina sem þjálfarar hafa vísað á til að finna út á hvaða hraða á að hlaupa mismunandi æfingar. Á næstunni munu þjálfarar setja upp æfingaáætlanir miða við í hvaða vegalengdum á að toppa í sumar/haust. Verða æfingar miðaðar við 5/10km hóp, ½ maraþonhóp og maraþonhóp. Fjölmargir í hópnum hafa sett stefnuna á Köln í byrjun október í maraþon og einnig mun stór hópur keppa í Reykjavíkurmaraþoninu og nokkrir í Berlínarþoninu. Því er ekki seinna vænna en að huga að æfingaundirbúningi og byrja undirbúning tímanlega.

Framundan er vormaraþonið og ætla nokkrir úr hópnum að taka þátt. Einnig fer fram Hérahlaup Breiðabliks þann 1. maí næstkomandi og er brautin þar kjörin til bætinga. Þessi fyrstu vorhlaup eru oft góð æfing og má nota þau til að leggja línurnar fyrir sumarið.

Í liðinni viku tóku fjölmargir félagar þátt í víðavangshlaupi ÍR og einnig í víðavangshlaupi Hafnarfjarðar og var árangur með ágætum þrátt fyrir leiðindaveður.

Smá seinkun varð á greiðsluseðlum vegna æfingagjalda en þau ættu að berast í heimabankann í þessari viku og vonum við að viðtökur verði góðar að venju.

Sjáumst á næstu æfingu tilbúin að taka á því : )

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.