ÆFINGIN Í DAG
Það voru um 40 manns á æfingu í dag. Veðrið var ljómandi 7° hiti, smá rigning og vindur, súperflott janúarveður.
Hrönn fór með hóp 2 í tempóhlaup yfir í Garðabæ. Pétur og Ingólfur fóru með hóp 1 í brekkuspretti og styrktaræfingar.
Félagi okkar, Sigurður Ísólfsson á afmæli í dag og sagði hann að það væri toppurinn á tilverunni að fá létta æfingu einu sinni. Þetta sagði hann áður en styrktaræfingarnar byrjuðu 🙂 Við óskum honum innilega til hamingju með daginn. Við klikkuðum alveg á afmælissöngnum, kannski sem betur fer?
Á myndinni er hann með Finni Sveinssyni, sem er að koma sterkur inn eftir hlaupa-fjarveru.
Svo var hún Ragnhildur Aðalsteinsdóttir spurð hvernig henni hafi þótt æfingin:
Frábær æfing, ógeðslega hressandi að hlaupa í rigningunni. Í síðasta spretti urðu fæturnir eins og brauð – en ég hafði það! Svo er frábært að fá styrktaræfingarnar á fimmtudögum 🙂
Í ÓSKILUM
Húfa og vettlingapar urðu viðskila við eiganda sinn eftir æfingu. Sá sem saknar Craft húfu og vettlingapars, hvoru tveggja er dökkt að lit, þarf ekki að örvænta því hún Tobba Pé tók hvoru tveggja til varðveislu. Eigandi getur vitjað þessa hjá henni á næstu æfingu.
MEISTARMÓT ÍSLANDS Í FRJÁLSUM 15-22 ára
Eins og talað var um fyrir æfingu þá er óskað eftir áhugasömum sjálfboðaliðum til að vinna við MÍ í frjálsum 15-22 ára sem fer fram helgina 2 til 3 febrúar.
Þið sem sjáið ykkur fært að vera með, þó ekki væri nema hluta úr degi væri það frábært. Vinsamlegast hafið samband við Eggert Bogason, eggert(hjá)vinbudin.is.
KOMASO