Frábær þátttaka í Atlantsolíuhlaupi nr. 2

Það var frábær þátttaka í hlaupi nr. 2 hjá okkur en 247 manns mættu en þar af voru 100 hlauparar mættir sem ekki tóku þátt í fyrsta hlaupinu. Eflaust setti veðrið strik í reikninginn en nokkur vindur var og smá úrkoma. Myndir af hlaupi nr. 1 og nr. 2 er hægt að skoða undir Myndefni á síðunni.

Alls mættu 46 hlauparar úr HHFH og tóku þátt. Allir stóðu sig með ágætum og var gaman að sjá hversu margir bættu sig á milli hlaupa. Það er greinlegt að góð ástundun er að skila góðum tímum í hús. Öll úrslit er að finna inn á www.hlaup.is sem og staðan í stigakeppninni. Þjálfarar vilja ennfremur þakka öllum þeim sem félögum sem aðstoðuðu við framkvæmd hlaupsins. Næsta hlaup fer fram 24. mars og þann 25. mars verða verðlaun veitt fyrir hlaupaseríuna. Þá fá þrír efstu í hverju flokk verðlaun sem og sigurvegarar karla og kvenna. Einnig verða vegleg útdráttarverðlaun í boði fyrir alla sem tóku þátt og eru félagar hvattir til að mæta. Athugið að aðeins þeir sem mæta og eru á staðnum eiga möguleika á útdráttarverðlaunum.

Nú fer keppnishlaupum fjölgandi eftir því sem nær dregur vori og er mikilvægt að félagar setji sér markmið fyrir ákveðin hlaup sem verða efst á keppnislistanum. Í nýlegum pósti sem var sendur á félaga var linkur inn á könnun sem félagar eru hvattir til að svara.

Næsta Poweradehlaup fer fram 10. mars og hafa margir í hlaupahópnum tekið þátt í vetur þrátt fyrir erfiðar aðstæður í sumum hlaupunum. Ennfremur má minnast á að þann 9. apríl heldur Skokkhópur Hauka 10km afmælishlaup og væri gaman að sjá félaga HHFH fjölmenna í þá keppni. Hringurinn ætti að henta öllum sem vilja spreyta sig á 10km í fyrsta skipti.

Sjáumst á næstu æfingu.

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.