Friðleifur Friðleifsson sigraði 7 tinda hlaupið

Friðleifur Friðleifsson kom fyrstur í mark í 7 tinda hlaupinu sem var að ljúka en hlaupið var eitt af dagskrárliðum Landsmóts UMFÍ sem nú stendur yfir í Mosfellsbæ. Hlaupið er utan vega, um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar og komið aftur í mark við Varmá. Friðleifur hljóp vegalengdina 37 km á 3 klukkustundum og 37 mínútum.

,,Ég byrjaði 2007 að hlaupa af einhverju viti. Ég hef verið að hlaupa á götum en þó meira utan vega síðustu misseri þar sem ég kann vel við mig. Þetta hlaup er erfitt og ótrúlega krefjandi. Ég held ég geti sagt að þetta er erfiðasta hlaup sem ég hef farið í á Íslandi. Ég hef hlaupið Laugaveginn, Jökulsárshlaupið, Snæfellsjökulinn og víðar. Mér finnst 7 tinda hlaupið það erfiðasta sem boðið er upp á,“ sagði Friðleifur Friðleifsson.

Tindarnir sem hlaupið er upp á eru Úlfarsfell, Reykjaborg, Reykjafell, Æsustaðafjall, Stórhóll, Mosfell og Helgafell.
,,Ég spilaði lengi handbolta og var ekki svo í íþróttum í töluverðan tíma áður ég fór að hlaupa fyrir alvöru. Ég hleyp á hverjum degi en maður getur alveg stjórnað tímanum sjálfum varðandi æfingar. Hlaupið er frábær vakning en ég er í sterkum og fínum hlaupahóp og með frábærum æfingafélögum í FH. Þar er andinn góður og það hjálpar manni á hlaupunum. Þetta sport gefur mér mikla lífsfyllingu og það er ekkert betra en vellíðanin eftir gott hlaup, hvort sem það er eftir hlaup eða æfingu. Ég hvet alla til að hlaupa,“ sagði Friðleifur Friðleifsson.

Mynd: Friðleifur Friðleifsson nýkominn í mark sem sigurvegari í 7 tinda hlaupinu á Landsmóti UMFÍ 50+.

Af heimasíðu UMFI

Líkar þér þessi grein? Miðlaðu henni:
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.